Skip to main content Skip to footer

Jafnlaunastefna Tónskóla Sigursveins

Jafnlaunastefna Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki skólans þau réttindi sem kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.


Markmið

Markmið jafnlaunastefnu Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar er að allt starfsfólk skólans fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sambærileg og/eða jafn verðmæt störf. Markmið jafnlaunastefnu er að útrýma kynbundnum launamun.

Laun eru greidd skv. kjarasamningum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Félags íslenskra hljómlistarmanna við Samband íslenskra sveitarfélaga eins og kveðið er á um í reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla.

Ákvörðun um kjör starfsmanna skal byggð á málefnalegum sjónarmiðum sem varða starfið og hæfniskröfur til þess. Þessi sjónarmið gilda hvort sem ákvörðun varðar laun, hlunnindi eða réttindi sem metin verða til fjár.

Starfsfólki skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum kjósi viðkomandi svo.

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og einstaklingar skulu fá greitt fyrir störf sín út frá verðmæti starfa þeirra, óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Ábyrgð

Skólastjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu og að það standist lög og skuldbindingar varðandi jafna stöðu og jafnan rétt allra starfsmanna óháð kyni. Stjórn Styrktarfélags Tónskóla Sigursveins sem jafnframt er stjórn skólans ber ábyrgð á stefnunni. Jafnlaunastefnuna skal endurskoða árlega í rýni stjórnenda.
Skólastjóri, sem jafnframt er framkvæmdastjóri skólans, er fulltrúi yfirstjórnar varðandi jafnlaunakerfið og er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012. Skólastjóri er ábyrgur fyrir að allir sem koma að launaákvörðunum hjá skólanum séu vel upplýstir um jafnlaunakerfið, verklagsreglur því tengdar sem og lögum og reglum sem gilda í jafnlaunamálum.

Til að ná settum markmiðum skuldbindur Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar sig til að:

  • Skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012 og öðlast vottun í samræmi við lög nr. 56/2017 um jafnlaunavottun.
  • Innleiða verklag og skilgreina launaviðmið til að tryggja að starfsfólk fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti þeirra óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.
  • Setja fram jafnlaunamarkmið og rýna þau.
  • Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítingu við kröfur.
  • Framkvæma innri úttekt og rýni stjórnenda árlega.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun og frábrigðum með því að sinna stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að ganga úr skugga um hvort kynbundinn launamunur sé til staðar.
  • Kynna starfsmönnum niðurstöður launagreiningar hvað varðar kynbundinn launamun.
  • Kynna jafnlaunastefnu skólans fyrir starfsfólki árlega og hafa hana aðgengilega almenningi á heimasíðu skólans; tonskolisigursveins.is

Jafnlaunastefna þessi var samþykkt á fundi stjórnar Styrktarfélags Tónskóla Sigursveins 31. mars 2023.